Ferill 374. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 602  —  374. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur (fjármagnstekjuskattur).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingibjörgu Helgu Helgadóttur, Hlyn Ingason, Elínu Guðjónsdóttur, Vilmar Frey Sævarsson og Margréti Þórólfsdóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Ingvar J. Rögnvaldsson og Jón Ásgeir Tryggvason frá Skattinum, Róbert Farestveit og Drífu Snædal frá ASÍ, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur og Sonju Ýr Þorbergsdóttur frá BSRB og Margréti Arnheiði Jónsdóttur, Ingibjörgu Árnadóttur og Írisi Baldursdóttur frá Samtökum fjármálafyrirtækja.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, BSRB, Hlyni Jónssyni lögmanni, Nasdaq Iceland, Reykjavíkurborg, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum fjármálafyrirtækja, Skattinum og Þóru Jónsdóttur. Þá barst nefndinni minnisblað frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Umfjöllun nefndarinnar.
Frítekjumark vaxtatekna (3.–4. gr.).
    Frítekjumark vaxtatekna einstaklinga var tekið upp árið 2010. Í tengslum við hækkun fjármagnstekjuskatts úr 20% í 22% árið 2018 var frítekjumarkið hækkað í 150.000 kr. Í frumvarpinu er lagt til að stofn fjármagnstekna sem falla undir frítekjumark verði breikkaður um leið og frítekjumarkið verði hækkað í 300.000 kr. Með samþykkt frumvarpsins nær frítekjumarkið einnig til úthlutaðs arðs og söluhagnaðar hlutabréfa í félögum sem eru skráð á skipulegum verðbréfamarkaði eða markaðstorgi fjármálagerninga. Arður og söluhagnaður hlutabréfa í óskráðum félögum, svo sem einkahlutafélögum, verður eftir sem áður að fullu skattskyldur.
    Markmið frítekjumarksins er að verja einstaklinga fyrir skattlagningu verðbóta – skattlagningu verðbólgu – en um leið auka skattalega hvata til fjárfestinga og sparnaðar. Í umsögn Nasdaq Iceland kemur fram að samþykkt frumvarpsins geti „skipt sköpun fyrir aðgengi lítilla og meðalstórra fyrirtækja að vaxtarfjármagni, fyrirtækjum sem viðbúið er að verði í framlínusveit okkar í viðspyrnu efnahagslífsins“.

Tekju- og verkaskipting ríkis og sveitarfélaga.
    Í umsögn Reykjavíkurborgar um málið er vakin athygli á því að sveitarfélög á Íslandi eru ekki undanþegin fjármagnstekjuskatti þrátt fyrir að meginverkefni þeirra séu lögbundin. Fjármagnstekjur sveitarfélaga eru að meginhluta til vaxtatekjur af skattgreiðslum eftir gjalddaga auk vaxtatekna af þeim hluta tekna sem sveitarfélög geta lagt til hliðar á hverjum tíma til að mæta síðari útgjöldum eða skuldbindingum sem þau eru í ábyrgð fyrir. Þá hafa sveitarfélög fjármagnstekjur af lánum til eigin fyrirtækja. Greiðsla fjármagnstekjuskatts vegna lánveitingar til eigin félaga girðir fyrir möguleika sveitarfélaga til að sækja lánsfé á hagstæðum kjörum og lána það fé áfram á sömu kjörum til eigin félaga sem sinni lögbundnu hlutverki sveitarfélagsins. Í umsögninni er lagt til að skattlagning fjármagnstekna sveitarfélaga verði afnumin. Jafnframt verði skoðað að veita sveitarfélögum hlutdeild í tekjum ríkissjóðs af fjármagnstekjuskatti þar sem margir einstaklingar og lögaðilar þiggi þjónustu sveitarfélaga en greiði lítinn eða engan skatt til þeirra.
    Meiri hlutinn telur rétt að þegar kemur að endurskoðun á tekju- og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga verði litið til þess að veita sveitarfélögum hlutdeild í fjármagnstekjuskatti. Samhliða verði grunnur fjármagnstekjuskatts sem sveitarfélög greiða endurskoðaður.

Breytingartillögur meiri hlutans.
Skattlagning hagnaðar af sölu frístundahúsnæðis (1. gr.).
    Við umfjöllun nefndarinnar komu fram ábendingar um að almennt ættu önnur sjónarmið við um frístundahúsnæði en íbúðarhúsnæði. Hafa þyrfti þann eðlismun í huga þegar til stæði að láta sömu reglur gilda um meðferð söluhagnaðar beggja tegunda eigna.
    Í fyrsta lagi kom fram það sjónarmið að ekki væri unnt að gera kröfu um að frístundahúsnæði hefði verið nýtt til íbúðar eiganda með tilheyrandi lögheimilisskráningu við mat á því hvort um eigin not eigenda hefði verið að ræða. Því þyrfti að gera þann fyrirvara að frístundahúsnæði hefði einungis verið nýtt af eigendum en ekki verið til útleigu gegn endurgjaldi. Í annan stað yrði að fella eignarhald undir stærðarmörk þannig að lagt væri að jöfnu eignarhald á íbúðarhúsnæði og frístundahúsnæði hvað söluhagnað varðaði. Í þriðja lagi skipti frístundahúsnæði tíðar um eigendur nú til dags og algengara væri orðið að slíkt húsnæði væri boðið til útleigu í hagnaðarskyni. Ætla mætti að tilgangi ákvæðisins verði náð, án þess að skapa almennt skattahagræði af kaupum og sölu frístundahúsa, með því að lengja þann tíma sem gerð er krafa um að eignarhald hafi varað að lágmarki á söludegi.
    Meiri hlutinn tekur undir framangreind sjónarmið að hluta og telur ástæðu til þess að skýra orðalag ákvæðisins að því er varðar eigin not og gera tvíþætta breytingu á efni þess, annars vegar að stærðarmörk 1. mgr. 17. gr. laganna gildi jafnframt um sölu frístundahúsnæðis og hins vegar að lágmarkseignarhaldstími á söludegi verði lengdur um tvö ár. Ekki er talið að þær breytingar komi niður á markmiði ákvæðisins. Hagnaður af sölu frístundahúsnæðis telst því ekki til skattskyldra tekna sé húsnæðið innan nefndra stærðarmarka og það hafi verið nýtt af eigendum en ekki verið til útleigu gegn endurgjaldi, enda hafi eignarhald varað að lágmarki í 7 ár á söludegi.
    Fram komu sjónarmið um að með breytingunni væri verið að flytja núverandi skattlagningu af frístundahúsnæði yfir á annað íbúðarhúsnæði, svo sem aukaíbúð, sem einstaklingur eða hjón kynnu að eiga og samanlagt rúmmál eigna þeirra færi yfir stærðarmörk 1. mgr. 17. gr. laganna. Við sölu á aukaíbúð, sem ekki væri til eigin nota, yrði heildarrúmmál frístundahúsnæðis inni í samtölu heildarrúmmáls íbúðarhúsnæðis seljanda.
    Meiri hlutinn áréttar að við sölu íbúðarhúsnæðis eiga stærðarmörk 2. málsl. 1. mgr. 17. gr. laganna ekki við þegar hið selda íbúðarhúsnæði hefur verið til eigin nota seljanda. Þegar svo ber undir kemur því ekki til skoðunar hvort heildarrúmmál hins selda fari fram úr mörkum ákvæðisins við mat á því hvort skattleggja beri söluhagnað af íbúðarhúsnæði. Þessari undantekningu frá reglunni um stærðarmörk var bætt við 2. málsl. 1. mgr. 17. gr. laganna með lögum nr. 124/2015. Skv. 1. gr. frumvarpsins, eins og lagt er til að henni verði breytt, verður frístundahúsnæði bæði að hafa verið til eigin nota og innan nefndra stærðarmarka til þess að hagnaður af sölu þess teljist ekki skattskyldur. Við mat á því hvort frístundahúsnæði sé innan stærðarmarka 1. mgr. 17. gr. laganna skal miðað við samanlagt heildarrúmmál hins selda frístundahúsnæðis og annars íbúðarhúsnæðis seljanda á söludegi. Hið gagnstæða gildir við mat á því hvort íbúðarhúsnæði sé innan stærðarmarka 1. mgr. 17. gr. laganna og hvort hagnaður af sölu þess teljist til skattskyldra tekna. Samkvæmt orðanna hljóðan í 2. málsl. 1. mgr. 17. gr. laganna skal miða við „heildarrúmmál íbúðarhúsnæðis“ seljanda við könnun á því hvort farið er fram úr stærðarmörkum og söluhagnaður skattlagður. Frístundahúsnæði telst ekki til íbúðarhúsnæðis og þar af leiðandi er heildarrúmmál þess ekki inni í samtölu stærðarmarka 1. mgr. 17. gr. laganna við sölu á íbúðarhúsnæði.
    Þá komu fram sjónarmið um að ástæða væri til að hækka stærðarmörk 1. mgr. 17. gr. til samræmis við meðalrúmmál frístundahúsa á Íslandi. Meiri hlutinn hefur skilning á þeim sjónarmiðum og telur rétt að þau komi til skoðunar í framhaldi af gildistöku ákvæðisins, verði frumvarpið að lögum. Jafnframt telur meiri hlutinn ástæðu til að fram fari heildræn endurskoðun á margnefndri rúmmálsreglu 1. mgr. 17. gr. laganna. Reglan er að stofni til frá árinu 1972 og full ástæða til þess að endurmeta hvort heildarrúmmál íbúðarhúsnæðis sé rétt viðmið við mat á því hvort skattleggja skuli söluhagnað tiltekinna fasteigna.

Fjármagnstekjuskattur vegna gengishagnaðar (2. gr.).
    Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að koma til móts við þá einstaklinga sem sjá fram á ákveðin útgjöld í öðrum gjaldmiðli en íslenskri krónu og fjárfesta því í erlendum gjaldeyri til að verjast gengisbreytingum. Þetta á ekki síst við um íslenska námsmenn sem stunda nám erlendis. Við umfjöllun meiri hlutans komu fram ábendingar um að framkvæmd frádráttarheimildar á móti innleystum gengishagnaði af sérgreindum sparnaðarreikningum gæti orðið flókin og matskennd. Með hliðsjón af þessu leggur meiri hlutinn til að 2. gr. frumvarpsins falli brott og beinir því til ráðuneytisins að vinna nánar að útfærslu framkvæmdarinnar í samráði við Skattinn og Samtök fjármálafyrirtækja. Við útfærsluna kann einnig að vera nauðsynlegt að líta til almenns frítekjumarks fjármagnstekna.

Undanþága frá staðgreiðsluskyldu (5. gr.).
    Í 5. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur þess efnis að innleystur gengishagnaður af sérgreindum sparnaðarreikningum verði undanþeginn staðgreiðsluskyldu í samræmi við fyrirhugaða breytingu 2. gr. frumvarpsins á lögum um tekjuskatt. Eðli máls samkvæmt leggur meiri hlutinn því til að 5. gr. frumvarpsins falli brott samhliða brottfalli 2. gr. Þar af leiðandi standa aðeins eftir frumvarpsgreinar um breytingu á lögum um tekjuskatt og er því lögð til breyting á fyrirsögn frumvarpsins því til samræmis.
    Aðrar breytingar eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif. Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      1. gr. orðist svo:
                      Við 8. mgr. 17. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sama gildir um sölu á frístundahúsnæði, að teknu tilliti til stærðarmarka skv. 1. mgr., sem nýtt hefur verið af eigendum og ekki verið til útleigu gegn endurgjaldi, enda hafi eignarhald varað að lágmarki 7 ár.
     2.      2. og 5. gr. falli brott.
     3.      3. gr. orðist svo:
                      Í stað 3. málsl. 3. mgr. 66. gr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Þó skal ekki reikna tekjuskatt skv. 1. málsl. af annars vegar vaxtatekjum og hins vegar tekjum af hlutabréfaeign í formi arðs og söluhagnaðar í félögum skráðum á skipulegum verðbréfamarkaði eða markaðstorgi fjármálagerninga, samtals allt að 300.000 kr. á ári hjá manni og skal frádráttur nýttur þannig að fyrst skal jafna út vaxtatekjur, næst arðstekjur og loks söluhagnað af hlutabréfum þar til hámarki frádráttar hefur verið náð. Enn fremur skal ekki reikna tekjuskatt af 50% af tekjum manns af útleigu íbúðarhúsnæðis sem nýtt er til búsetu leigjanda og fellur undir húsaleigulög.
     4.      Orðin „samkvæmt framangreindri upptalningu“ í a-lið 4. gr. falli brott.
     5.      Fyrirsögn frumvarpsins verði: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003 (fjármagnstekjuskattur).

Alþingi, 15. desember 2020.

Óli Björn Kárason,
form.
Brynjar Níelsson,
frsm.
Jón Steindór Valdimarsson.
Bryndís Haraldsdóttir. Ólafur Þór Gunnarsson. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Willum Þór Þórsson.